Stafræna byltingin

Hvar stendur fyrirtæki þitt

Neytendur kalla sífellt eftir hærra þjónustustigi og fyrirtæki þurfa að bregðast við kallinu til að verja stöðu sína á markaði. Án viðbragða er hætt við því að neytendur og viðskiptavinir líti í kringum sig og finni jafnvel aðra birgja eða keppinauta sem bjóða betur. Í dag vill fólk geta gert nánast allt á netinu á hraða ljóssins og vill helst ekki borga neitt. Farsímar, snjallúr, spjaldtölvur og jafnvel lesbretti koma í ríkari mæli í stað heimsókna í verslanir eða útibú. Eina leiðin til að lifa af er bregðast við og tileinka sér þessa “stafrænu umbreytingu” eða Digitalization (e. Digital Transformation). Stafræn Umbreyting er átak til að rafvæða núverandi viðskiptahætti, auka þjónustustig og samkeppnishæfni fyrirtækisins á sama tíma. Samkeppnin um viðskiptavininn hefur aldrei verið harðari. Allir þurfa að taka þátt, allir! En hvað felur hugtakið stafræn umbreyting í sér? Oft er verið að blanda saman 3 flokkum af mismunandi umbreytingum. Mikilvægt er að skilja á milli þessara 3 flokka því þeir eru mjög ólíkir og eiga í raun ekki allir að vera felldir undir sama hatt.

Fyrsti flokkurinn á við um rekstur, það má deila um það hvort þessi flokkur eigi heima hér, en hann er tekinn með því á sama tíma og um umbreytingu er að ræða, þá falla þessar umbreytingar frekar undir ferlavæðingu eða sjálfvirknivæðingu viðskiptaferla. Ekki er í raun verið að umbreyta því virði sem viðskiptavinurinn sækir til fyrirtækisins í formi vöru eða þjónustu. Fyrirtækið uppfærir í raun sama ferli og áður með nýrri tækni. Þó svo að þessi verkefni séu umfangsmikil, erfið og leiði af sér sparnað vegna aukins hraða, þá fellur þetta ekki undir þá umbreytingu, sem fjallað er um hér. Kjarnastarfsemi fyrirtækis er sú sama, það að vera flinkari að spila leikinn á sama hátt með nýrri tækni, drífur ekki langt í síbreytilegum heimi og styrkir samkeppnishæfni fyrirtækisins að litlu marki. Reyndar getur þessi uppfærsla verið rökrétt nauðsyn til að geta hrint umbreytingu í gagnið í framhaldinu. Hér eyða fyrirtæki oft miklu púðri í lítinn hvell.

Næsti notkunarflokkur (Umbreyting A) einblínir á að breyta rekstrarlíkani fyrirtækis, einnig kölluð kjarna Umbreyting (core transformation). Umbreytingin breytir kjarnastarfsemi fyrirtækis, til þess þarf meiriháttar Umbreytingu; Netflix er frábært dæmi um þetta. Síðustu 5 ár hefur Netflix breytt grundvallarstarfsemi sinni frá því að senda DVD diska í pósti, yfir í að senda myndbandsefni á rafrænu formi yfir veraldarvefinn. Netflix gerði reyndar gott um betur og færði sig nokkrum þrepum ofar í virðiskeðju sinni. Umbreytingin var undirbúin gaumgæfilega, fyrirtækið var með skýra stefnu og fjárfesti grimmt og í dag framleiðir Netflix sitt eigið efni. Efnið sem er efnislega byggt upp til að mæta þörf viðskiptavina sinna, sem sagt framleitt út frá eftirspurn, framboði og notkun. Þannig hámarkar Netflix líkur á að efnisvalið nái, sem best til núverandi kúnna ásamt nýrra, fullkomin framkvæmd.

Síðasti notkunarflokkurinn (Umbreyting B), er sá flóknasti af þessum þremur og krefst gríðarlegrar herkænsku og undirbúnings. Hann er kallaður strategískur eða stefnumarkandi, hann lofar góðu ef rétt er haldið á spilunum, en gæti teflt fyrirtækinu í tvísýnu ef gert í óðagoti. Þetta er Umbreyting með stóru U-i því það felur í sér breytingu á kjarnastarfsemi fyrirtækisins. Eins og að breyta vökva í gas, eins og Apple fór frá því selja borðtölvur í að selja neytendavöru eins og Ipod, Ipad og Iphone, Google frá auglýsingum til sjálfstýrandi bifreiða. 1

Það að hrinda Umbreytingu í gagnið er mjög flókið ferli. Þessi staðreynd hefur verið staðfest í nýlegri rannsókn, sem birt var í fyrra af Gartner Group: Samkvæmt henni voru einungis 1% fyrirtækja sem töldu sig vera nógu vel í stakk búin til að geta nýtt sér stafræna Umbreytingu þannig að þau fái arð af fjárfestingunni. Þetta kemur einnig fram í rannsókn sem gerð var á 200 fyrirtækjum út um allan heim. 2 ,3.

Mikilvægt er að átta sig á þessum tveimur mismunandi flokkum stafrænnar umbreytingar, mikilvægt er að vera með rétta mælistiku á frammistöðu eftir stafræna Umbreytingu. Netflix er td ekki lengur að nota frammistöðumælistiku; kostnaður vöruhúsa og sendingarkostnað, heldur uppitíma á vefsíðu og breiðbandskostnað. Rekstraráherslur sem einblína á að gera daginn í dag betri, leiða ekki annað af sér, en að verða jafngóður og keppinautarnir, sem eru hæfastir til að útfæra nákvæmasta viðskiptalíkan gærdagsins. Þessi hugsunarháttur tryggir einungis skammtíma tilvist fyrirtækis, í stað langtíma sjálfbærni fyrirtækisins. Stjórnendar ættu því heldur að hugsa um hvernig megi að blanda rekstrarlíkani og strategískri umbreytingu í fyrirtæki þeirra. “Umbreyting A” styrkir núverandi kjarna rekstrar stöðu fyrirtækisins. “Umbreyting B” býr til kjarnaviðskipti morgundagsins. Sameinilega átakið ætti að vera rökrétt framhald og í takt við strategíska stefnu fyrirtækisins og byggð upp á getu fyrirtækisins. Það er leiðin sem stjórnendur eiga að grípa til að standast tilvistarlega áskorun, sem felst í kalli hins almenna neytanda til að fá betri þjónustu, frekar en að gera ekki neitt og vona það besta

Gudmundur Albert Hardarson