Er stress á þínum vinnustað?

Langvarandi kvíði og streita geta haft ýmsar alvarlegar afleiðingar og eru meðal annars ein helsta orsök fyrir því að fólk endar í kulnun (1). Þrátt fyrir að við vitum þetta þá lifum við í samfélagi þar sem tíminn líður hratt, við þurfum flest að áorka miklu á hverjum degi og stress og streita er orðinn víðtækur vandi á Íslandi.

Starfsumhverfi og starfsstreita eiga oft stóran þátt í kulnun hjá fólki, enda eyðir meðal manneskja á atvinnumarkaði stærstum parti af deginum í vinnunni. En vinnan er ekki eini streituvaldurinn í lífi einstaklinga, hið daglega líf getur bara verið ansi stressandi líka. Eftir langan vinnudag þarf að sækja krakkana í leikskóla/skóla, koma þeim í og úr tómstundum, fara í búð, elda matinn, ganga frá eftir matinn, hjálpa til við heimalærdóm, koma öllum í rúmið og svo byrjar sama rútínan aftur daginn eftir. Ekki minnkar streitan ef ofan á bætast fjölskylduerfiðleikar, veikindi eða sjúkdómar, erfiðleikar í samböndum og samskiptum, barnauppeldi, afborganir, peningaáhyggjur og fleira og fleira sem getur valdið fólki mikilli streitu og áhyggjum.

Flestir atvinnurekendur eru stórir fjárfestar – þeir fjárfesta í fólki og tíma þess. Það að reka farsælt fyrirtæki er samvinna á milli allra sem þar starfa, því hafa allir innan fyrirtækisins hlutverk sem er liður í því að heildin, þ.e. fyrirtækið, nái markmiðum sínum. Þess vegna er það hagur hvers atvinnurekanda að starfsfólki líði sem best í vinnunni, til að fá sem mest út úr tíma þess. Langvarandi streita getur valdið því að fólk á oft erfiðara með samskipti og vinnur þar af leiðandi verr með öðrum. Einnig veldur langvarandi streita oft pirringi og öðrum skapbrestum og eða því að fólk getur orðið áhugalaust um vinnuna og verkefnin (1). Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á aðrar afleiðingar streitu. Mikil streita hefur áhrif á framheila, en framheili gegnir mikilvægu hlutverki í rökhugsun og ákvarðanatöku (2). Þetta segir okkur að fólk sem er þjakað af streitu á það á hættu að taka verri og ver ígrundaðar ákvarðanir en ella.

En hvað er hægt að gera? Í grein sem birtist í „Journal of Labor Economics“ árið 2015, var gerð rannsókn á því hvort tengsl væru á milli hamingju/ánægju starfsfólks og framleiðni þess í vinnu. Í þessari rannsókn kom fram að hamingja (happiness) hefur bein áhrif á framleiðni starfsfólks. Minni hamingja dregur markvisst úr framleiðni, en þeir sem mælast hamingjusamir mælast einnig með 12% betri framleiðni en gerist að meðaltali (3). Heilbrigt starfsumhverfi er mjög mikilvægur liður í því að minnka streitu og atvinnurekendur geta gert ýmislegt til að stuðla að heilbrigði á sínum vinnustað.

Núvitund er ein þeirra leiða sem hefur reynst vel við að draga úr streitu. Núvitund má rekja til Buddisma og er aldagömul hugleiðsluaðferð sem felst í því að fólk taki betur eftir því sem er að gerast í kringum það, eða innra með því, en leyfi ekki huganum að reika og vera andlega fjarverandi. Rannsóknir hafa meðal annars gefið vísbendingar um að núvitundariðkun geti reynst vel við að draga úr ýmsum heilsufarsvandamálum og ekki síst við andlegum vandamálum svo sem streituþunglyndi og kvíða.

Að stuðla að núvitundarvakningu og núvitundariðkun á vinnustöðum hefur samkvæmt rannsóknum reynst vel, og eru merki um að bein tengsl séu á milli núvitundariðkunar og framleiðni starfsfólks á vinnustað (4). Birtingarmynd þess er að með aukinni núvitundariðkun minnki stress, veikindadögum fækki, hafi jákvæð áhrif á sambönd fólks, auki hæfni til að halda sér rólegum í erfiðum aðstæðum, bæti svefn og auki ánægju og hamingju á vinnustað (5).

Til eru nokkrar einfaldar aðferðir sem atvinnurekendur geta innleitt og hvatt starfsfólk sitt til að tileinka sér sem minnka stress og auka núvitund. Það gæti verið einn liður í að auka starfsánægju og starfsheilbrigði á þínum vinnustað, en þarf alls ekki að vera dýrt!

Hér að neðan eru 5 árangursríkar en mjög ódýrar leiðir til að innleiða núvitundariðkun á þínum vinnustað:

Hugleiðsla í hádeginu: Er auðvelt að innleiða, sérstaklega á stærri vinnustöðum þar sem eru mötuneyti. Eina sem þarf er að spila róandi tónlist (mikið af því til á youtube, við mælum með 432Hz sem á að vera mest heilandi hljóðbylgjulengdin fyrir líkama og sál) og „create awareness“, hengja plaggöt á veggina sem hvetja fólk til að vera meðvitað á meðan það borðar, njóta hvers bita, ekki borða of hratt og fylgjast með hugsunum sínum. 

Hugleiðsluherbergi: Önnur frábær leið er að vera með afdrep, til dæmis eitt fundarherbergi (sé það í boði) þar sem spiluð er leidd hugleiðsla (e.g. guided meditation, mikið efni til á youtube), þar sem fólk getur sest inn í 5-10 mínútur og núllstillt hugann með aðstoð „kennara“. Fólk getur til dæmis bókað sig á 5-15 mínútna langa fundi í hugleiðsluherberginu, eftir því sem best hentar hverjum og einum.

Núvitundarmarkmið dagsins/Vikunnar: Mörg fyrirtæki halda daglega morgunfundi, eða töflufundi í upphafi hvers dags. Þar hittast teymin og fara yfir málefni líðandi stundar, hvaða verkefnum þau eru að vinna í og hvernig gengur. Þetta er einnig frábær vettvangur fyrir teymin til að setja sér „núvitundarmarkmið dagsins/vikunnar“. Mikilvægt er að setja sér mælanleg markmið, til dæmis að hver og einn innan teymisins hrósi 5 mismunandi einstaklingum í teyminu eða þvert á fyrirtækið yfir vikuna, brosi til annarra ákveðið oft yfir daginn, að nota ákveðin hvatningar eða upplífgandi orð eða setningar í samtölum ákveðið oft yfir vikuna. Þessar æfingar krefja fólk til að vera meira meðvitað um umhverfið í kringum sig, fólkið sem það á samskipti við og samtölin sem þau eiga yfir daginn.

Skrifborðshugleiðsla: Mörg fyrirtæki nota þjálfunarmyndbönd þar sem hver og einn starfsmaður er beðinn um að horfa á ákveðið myndband, eftir því hvað verið er að leggja áherslu á hverju sinni, og svara svo nokkrum spurningum í lokinn. Þetta er hægt að nýta einnig í hugleiðslu. Mörg hugleiðsluöpp eru í boði sem bjóða upp á mis löng prógröm, allt frá 2 mínútum og uppúr. Hægt er að kaupa áskrift af þessum öppum fyrir starfsfólk og hvetja síðan til reglulegrar, notkunar, hvort sem hugleiðslan fer fram heima eða á vinnutíma. Headspace, muse og Calm virðast vera vinsælustu öppin á markaðnum í dag. Þau eru bæði til sem desktop öpp fyrir tölvur sem og fyrir síma og spjaldtölvur. 

Skrifborðsteygjur og hugleiðsla: Rannsóknir hafa sýnt fram á að of mikil og löng seta á daginn yfir lengra tímabil getur haft í för með sér ýmsa alvarlega líkamlega kvilla eins og bakverki og verki í mjöðmum en einnig aukið líkur á alvarlegum sjúkdómum og auki líkur á dauðsfalla vegna hjartasjúkdóma eða krabbameins um allt að 18% (6). Að hvetja starfsfólk sitt til að standa upp allavega 3x yfir daginn og gera nokkrar léttar teygjur við skrifborðið, ásamt því að vera meðvitað um andadrátt sinn á sama tíma, eykur ekki bara blóðflæði til heilans og hjálpar andlegri heilsu, heldur gæti hreinlega bjargað lífi þess!

Fjárfesting í hamingju starfsfólks gefur þér skýrt samkeppnisforskot með ánægðara starfsfólki og aukinni framleiðni - byrjaðu strax í dag!

Viljirðu kynna þér málið frekar, þá eru eftirfarandi heimildirnar sem við vitnum í:

1.     https://www.vr.is/thekktu-thin-mork/thekkir-thu-einkennin/

2.     https://www.livescience.com/22570-decisions-control-frontal-lobe.html

3.     https://www.journals.uchicago.edu/doi/full/10.1086/681096

4.     https://www.shawnachor.com/project/harvard-business-review-the-value-of-happiness/

5.     https://zapier.com/blog/mindfulness-and-productivity/

6.     https://www.livescience.com/49518-sitting-cancer-heart-risk.html).

7.     https://www.researchgate.net/publication/317258926_Mindfulness_Can_Make_You_Happy-and-Productive_A_Mindfulness_Controlled_Trial_and_Its_Effects_on_Happiness_Work_Engagement_and_Performance