Þín verðmætasta auðlind

warren-wong-238678-unsplash.jpg

Þín verðmætasta auðlind

Venjulegur vinnudagur. Ég tók loksins frá klukkutíma í deginum til að vinna að tillögu fyrir viðskiptavin – mikið var að ég gaf mér fókusinn og tímann! Ég settist niður fyrir framan tölvuna með farsímann á borðinu fyrir framan mig og kveiktu á uppáhalds laginu mínu í heyrnartólunum – nú get ég látið hendur standa fram úr ermum!

DING! segir síminn – æ ég verð eiginlega að svara þessu email. Korter farið.

DING! Æjá ég ætlaði að svara félaga mínum með þetta líka. 10 mín farnar.

DING! Oh auglýsing í símann, frábært. Fókusinn alveg út um gluggann.

Allt í einu er klukkutíminn liðinn – ætli ég hafi unnið 20-25 mínútur af þessum 60 mínútum?

Þetta er algengt vandamál. Heimurinn okkar er uppfullur af athyglisþjófum sem banka upp á allan daginn. Samkvæmt rannsókn frá 2013, þá tvöfaldast villur í vinnunni við þriggja sekúndna truflun. Erfitt er að gera greinarmun á hvað er mikilvægt og hvað ekki og tíminn getur hreinlega hlaupið frá manni. Maður sjálfur er neytandi upplýsinga – en upplýsingarnar nærast á athygli manns.

Athyglin er svo verðmæt að stærstu fyrirtæki heims bókstaflega borga pening til að fá smá sneið af þessari auðlind. Oft sóum við auðlindinni og eyðum henni í óþarfa og jafnvel skaðlega hluti í stað þess að beita henni í þágu þess sem skiptir okkur máli og gerir okkur gott. Það er mikil synd því þessi auðlind er það mikilvægasta sem þú átt.

Lífið er samansett af upplifunum. Ef þú ert ekki með athyglina á þeim stað sem þú vilt hafa hana, þá muntu missa af upplifunum sem skipta þig máli. Þú þarft að hafa athyglina á því sem þú vilt gera, hvort sem það er að fara í frekari menntun eða gera eitthvað fyrir sjálfan þig eða fjölskylduna. Með því að beita athyglinni og stjórna henni þá muntu koma því í verk og eiga þessar upplifanir sem þú stefnir að og lifa lífinu sem þú vilt lifa. Því ræðst upplifun þín af lífinu sjálfu af því hvert þú beinir athyglinni

Við fáum of mikið af upplýsingum á hverjum degi og getum ekki veitt öllu athygli. Auglýsendur vilja grípa athygli þína og segja þér frá sínum afurðum, því þú ert ekki að fara að kaupa vöru eða þjónustu sem þú hefur aldrei heyrt af áður. Það er svo auðvelt að ná í mann í símann eða með skilaboðum, og auðvitað er maður „knúinn“ til að svara vinum og fjölskyldu. En eitthvað þarf að sía frá, því það eru bara ákveðið margar klukkustundir í sólarhringnum. Þetta þýðir að athygli þín er takmörkuð auðlind og þú þarft að ákveða oft á dag hvort að þú notir hana fyrir þig eða hvort þú leyfir öðrum að nota hana.

Að stjórna athyglinni og nýta hana í gagnlega og eftirsóknarverða hluti er því eitt það mikilvægasta sem þú getur gert til að bæta lífið. Það eru engin stór leyndarmál hvaða aðferðir eru góðar til þess, þar er hægt að nefna:

·      Einn verkefnalisti fyrir allt sem þú þarft að gera (persónulegt og í vinnunni)

·      Setja mikilvæga hluti í forgang, fram yfir áríðandi hluti sem eru minna mikilvægir

·      Einblína á skilvirkni framyfir framleiðni

·      Hnitmiðuð dagbókarskrif, t.d. BulletJournal

·      Persónuleg markmiðasetning

·      Hafa símalausan tíma eða símalausa daga til að minnka þörfina að kíkja á símann

·      Æfa þig í því að beina athyglinni á staði sem þú vilt halda henni, til dæmis með hugleiðslu eða núvitund

·      Taka örstutt hlé frá vinnu, oft á klukkutíma

Þessi listi er langt frá því að vera tæmandi, en eru þeir punktar sem okkur fannst vert að nefna. Fyrir fleiri hugmyndir að öðrum góðum aðferðum til að halda athyglinni á réttum stað er hægt að lesa hér um 8 leiðir til að bæta fókus.

Fyrst og fremst snýst athyglisstjórnun um að byggja upp nýjar venjur sem koma í stað eldri venja. Gott er að hugsa um að þú sért að búa til þitt eigið stýrikerfi sem þú notar til að halda utan um öll þín verkefni. Flestir vinna hlutina eftir hendinni um leið og þeir koma inn. Með því að búa þér til þitt eigið stýrikerfi, eða nota kerfi sem hentar þér, þá getur þú farið að taka ákvarðanir varðandi í hvað þú ætlar að notar athyglina. Yfirsýnin er nauðsynleg, hún gerir þér kleift að ákvarða hvað er mikilvægt fyrir þig og hvað þú vilt ná fram með því.

Taktu eftir að athyglisstjórnun og tímastjórnun er ekki sami hluturinn. Tíminn mun líða þó þú hólfir daginn niður og vinnir eftir stífum tímamörkum og það er alltaf áskorun að halda athyglinni að því sem þú ert að vinna að. Tímastjórnun er blekking og úrelt hugtak í nútímaheimi þar sem barist er um hverja sekúndu af athygli okkar. Því er betra að byggja upp góðar venjur svo þú getir fært athyglina á hluti sem þú vilt gera og af hlutum sem þú vilt sleppa.

Ef þú hefur áhuga á að lesa meira um að byggja upp góðar venjur þá mælum við með að lesa um markmiðasetningu hér á CoreMotif blogginu og einnig um að fókusa á skilvirkni framyfir framleiðni. Einnig er þess virði að skoða þennan TED fyrirlestur um athygli sem var innblásturinn að þessum texta.