Sérð þú tækifæri í krísunni?

Photo by Fionn Claydon on Unsplash

Þessi grein hefur verið uppfærð síðan hún birtist fyrst 21.10.2019 á Kjarnanum undir heitinu Ekki láta góða kreppu fara til spillis - nýttu hana sem tækifæri

Undanfarið hafa dunið á okkur fréttir um að efnahagsumhverfi heimsins fari versnandi. Covid-19 veiran hefur farið um heiminn eins og eldur í sinu og mörg ríki hafa sett á samkomu- og útivistarbönn. Einnig hafa fjármálamarkaðir tekið dýfu, sambærilega við þá sem þeir tóku í efnahagshruninu 2008. Bjartsýnustu spár hagfræðinga gera ráð fyrir töluverðum samdrætti sem mun vara í mánuði á meðan þær svartsýnustu gera ráð fyrir niðursveiflu í allt að 5 ár. Allt veltur þetta á getu stjórnvalda til að spyrna á móti útbreiðslu veirunnar og auka rýmd heilbrigðiskerfisins. En hvað getum við sem leiðtogar, stjórnendur og frumkvöðlar gert til að vernda þau störf sem við höfum hjálpað til við að skapa og leggja okkar af mörkum til að hjól atvinnulífsins haldist áfram að snúast?

Allar breytingar í efnahagslífinu hafa einhver áhrif á fyrirtæki sem þá á móti þurfa að bregðast við. Fyrirtæki sem áttu trygga markaðshlutdeild munu missa spón úr aski sínum. Á sama tíma eiga fyrirtæki með nýjar og ferskar vörur og þjónustur greiða leið að markaðshlut þeirra fyrirtækja sem eiga í erfiðleikum.

Það að hreyfing komi á markaði þýðir líka að ný og spennandi tækifæri geta birst þér og þínu fyrirtæki. Spurningin er, hvernig ætlið þið að bregðast við? Í núverandi árferði eru í grunninn bara tvær leiðir til að bregðast við, það er hægt að sætta sig við ástandið og bíða eftir að það líði hjá eða snúa vörn í sókn. Það síðarnefnda er töluverð áskorun og getur tekið á, sérstaklega á tímum sem þessum. Hér fyrir neðan höfum við tekið saman nokkur ráð fyrir fyrirtækjaeigandann, forstjórann eða metnaðarfulla millistjórnandann til að tryggja að vel gangi að grípa þau tækifæri sem bjóðast.

 
skills.png
 

Vertu viss um að setja viðskiptavininn í fyrsta sæti

Þegar vel gengur hjá fyrirtækjum geta þau lent í því að missa sjónar á því sem skiptir þau mestu máli, það er að segja viðskiptavininum. Án viðskiptavina getur fyrirtækið ekki skapað neitt virði eða neinar tekjur. Nú er nauðsynlegt að fara í naflaskoðun, kortleggja upplifun viðskiptavina og greina virðisstraumana ykkar og þjónustur með það að markmiði að finna hvernig þið skapið sem mest virði. Kortlagning á upplifun viðskiptavina er grunnurinn að allri sjálfvirknivæðingu og stafrænni þróun. Með því að setja viðskiptavininn í fyrsta sæti getið þið haldið þeim í viðskiptum í stað þess að missa þá til samkeppnisaðila. Er viðskiptavinurinn í fyrsta sæti hjá þér í dag?

Hugsaðu vel um starfsfólkið þitt

Sú heimsmynd sem við höfðum fyrir mánuði síðan hefur snúist á hvolf. Fyrir örfáum vikum kepptust fyrirtæki við það að fá til sín fólk úr öllum áttum: fullir ráðstefnusalir, verslanir og hóptímar voru merki um velgengni. Í dag eru sömu hlutir táknmynd smithættu og illa séðir. Við munum þurfa að beita stafrænni þróun af auknum krafti til að endurhanna þjónusturnar okkar, ekki eingöngu til að draga úr rekstrarkostnaði heldur líka til að gæta að heilsu og vellíðan starfsfólksins okkar. Með því að færa verslunarreksturinn á netið, senda vörur heim að dyrum, gera starfsfólkinu okkar kleift að vinna heiman frá sér og færa ráðstefnur og hóptíma yfir á netið getum við framleitt sama virði fyrir viðskiptavininn, staðið vörð um heilsu allra hlutaðeigandi og mögulega lækkað rekstarakostnaðinn okkar, allt á einu bretti.

Þegar auðlindir eru af skornum skammti, skiptir öllu að nota þær rétt

Þegar að það harðnar í ári þarf að nýta þær auðlindir sem fyrirtækið hefur yfir að búa á sem besta máta. Í uppvexti er svo auðvelt að missa sjónar á því hvað skiptir raunveruleg máli. Nýttu tækifærið í kreppunni og bættu fókusinn í fyrirtækinu. Mikilvægustu auðlindir hvers fyrirtækis eru hugvit, tími og orka starfsmanna. Ef fyrirtækið þekkir viðskiptavini sína og þarfir þeirra vel þarf að gæta þess að virðisaukandi verkefni séu í forgrunni. Starfsemi og fjárfestingar sem hafa hvorki áhrif á ánægju né upplifun viðskiptavina ætti að endurskoða. Ert þú viss um að fyrirtækið þitt sé að nýta auðlindir sínar á besta mögulega máta?

 
 

Mundu að kreppan er tímabundin, en fyrirtækið til framtíðar

Ekki gleyma því að allar kreppur eru bara tímabundnar. Harðnandi rekstrarumhverfi gerir öll vandamál sýnilegri og lyftir þeim upp á yfirborðið þar sem allir finna meira fyrir þeim. Óhagræði í rekstri, hár kostnaður, langir viðbragðstímar og tækniskuld eru aðeins hluti af þeim vandamálum sem geta komið upp. Gættu þess að ráðast ekki í hagræðingar aðgerðir sem gætu skaðað fyrirtækið til lengri tíma litið. Með því að ráðast í verkefni sem búa í haginn til framtíðar munt þú ekki bara gera fyrirtækið þitt samkeppnishæfara heldur gætir þú aukið starfsánægju allra í leiðinni. Gættu þess að hlúa vel að vaxtarsprotunum í stað þess að fórna þeim fyrir vonlítinn rekstur.

Reyndu að vaxa og hafðu tilgang með sparnaðnum

Þegar það harðnar í ári getur verið freistandi að spara í kexinu, kaupa ódýrari kaffibaunir og fækka starfsfólki á stoðsviðum. Það má vissulega spara krónurnar þannig, en á móti kemur að breytingar til að spara krónur í umhverfi starfsmanna geta kostað þig þúsundkalla í formi óánægju, óvissu og lægri framleiðni.  Þegar sparnaðarútreikningarnir eru gerðir þarf að spyrja sig hvað aðgerðirnar geta kostað með tilliti til mjúku málanna, áhættumeta þær og spyrja sig hvort þær séu þess virði. Klukkutímalangur fundur til að ræða kexsparnaðinn getur auðveldlega kostað meira en upphæðirnar sem sparast með því að skipta í ódýrara súkkulaðikex. Settu orkuna frekar í að elta vaxtartækifæri sem myndast í niðursveiflunni.

Notaðu tæknina til að bæta hag viðskiptavina

Stafræn umbreyting er heitt málefni í íslensku viðskiptalífi í dag. Með því að sjálfvirknivæða má ekki bara spara tíma heldur líka lækka kostnað. Af mörgu er að taka þegar við skoðum hvað má sjálfvirknivæða, með framförum á sviði sjálfvirknivæðingar, gervigreind og vélnámi má nánast sjálfvirknivæða hvað sem er. Gættu þess þó að hagræðingin sé ekki á kostnað upplifunar viðskiptavinarins eða vilja hans til að vera í viðskiptum við þig. Þegar öllu er á botninn hvolft snýst reksturinn þinn um viðskiptavininn og upplifun hans. Ert þú að sjálfvirknivæða réttan hluta af viðskiptamódelinu þínu?

Hvað sem þú þarft að gera, gerðu það rétt

Það getur kostað mikið að gera rétta hlutinn sé hann gerður rangt. Með því að beita hugarfari straumlínustjórnunar (Lean) og kvikri nálgun (Agile) ásamt hönnunarhugsun (Design Thinking) má draga úr líkunum á því að þeir séu gerðir rangt. Dæmi um slíkar ákvarðanir gæti verið að læsast inni hjá byrgjum þegar nýjar tæknilausnir eru útfærðar. Að byggja flöskuhálsa inn í mikilvægar þjónustur og ferla, eða gleyma hreinlega mikilvægum þjónustuþáttum við endurhönnun þjónusta. Með því að setja smá tíma og orku í að hugsa það hvernig hlutir eru útfærðir getur þú sparað þér töluverðan hausverk.

 
interview.png
 

Passaðu þig á pólitískum átökum

Það er engin góð leið til að segja það, en þegar það harðnar í ári aukast líkurnar á því að starfsfólk fari að benda á hvort annað og hætta að starfa saman sem heild. Þegar sölunum fækkar, eða viðskiptavinirnir verða óánægðir er hætta á því að sumir haldi að vandamálin séu öðrum að kenna, eða bendi einfaldlega á aðra til að draga athyglina frá sér. Til að yfirstíga efnahagslegar, samfélagslegar, pólitískar og rekstrarlegar áskoranir þurfum við öll að vera í sama liði, deila sameiginlegri sýn og vera samstíga. Mótun sameiginlegrar sýnar, framkvæmdaráætlunar og að huga að ánægju starfsfólksins hefur aldrei verið mikilvægara en núna. Eru allt samstarfsfólkið þitt að stefna í sömu átt?

Fjarvinna felur í sér nýjar áskoranir

Við sem stjórnendur og leiðtogar höfum mörg hver vanið okkur á það að stjórna með því að vera til staðar á skrifstofunni. Með því að gera okkur sýnileg, vera með opna skrifstofu og taka á þeim vandamálum sem koma upp um leið og þau koma upp. Með aukinni fjarvinnu þurfum við ekki eingöngu að gæta þess að við séum áfram sýnileg, aðgengileg og fylgjumst með starfseminni heldur þurfum við líka að gera verða markmiðadrifnari. Það að ná fram árangri með fyrirtækjunum okkar, teymunum og starfsfólki verður þeim mun erfiðara þegar fyrirtækin, teymin og einstaklingarnir eru bara aðgengileg í gegnum tölvupóst, spjallforrit og fjarfundi. Þá skiptir miklu máli að fólk viti til hvers er ætlast af þeim, hvert fyrirtækið sé að stefna og hvernig gangi að ná markmiðunum.

Ef þú bíður of lengi er hætt við að þú hættir að skipta máli

Sumir segja að besta leiðin til þess að elda krabba sé að sjóða þá hægt og rólega. Það getur að sama skapi verið freistandi í rekstri fyrirtækja að bíða og sjá hvað gerist. Því stærra sem fyrirtækið er, og því hærri fjárhæðir sem eru undir, því líklegra er að þau bíði og sjái. Það sama gildir um minni fyrirtæki í ólgusjó og óvissu. Það að bíða og sjá getur verið dýr strategía fyrir fyrirtæki þar sem mun ódýrara getur verið að bregðast við atburðum strax og þeir gerast. Clayton M. Christensen skrifaði í bók sinni The Innovator‘s Dilemma um fyrirtæki sem sváfu á verðinum og brugðust of seint við. Á meðan þau biðu náðu samkeppnisaðilar að skapa nýja markaði, markaði þar sem eldri fyrirtæki voru ekki með í leiknum.  Ætlið þið að bíða og sjá til hvernig málin þróast?

Kreppa sem þitt tækifæri?

Þegar erfiðleikarnir dynja yfir verður öllum ljóst að eitthvað þarf að gera. Nýttu það tækifæri til að keyra í gegn breytingarnar sem þú hefur lengi barist fyrir og hafa ekki komist að. Nýttu það tækifæri til að styrkja stöðu þína á markaði. Nýttu það tækifæri til að þróa þjónusturnar þínar og vörur áfram til að mæta breyttum mörkuðum. Nýttu það tækifæri til að stappa stáli í fólkið þitt og styrkja liðsheildina. Ef þú þarft að breyta á annað borð, breyttu þá rétt.

Þau fyrirtæki sem standa sig hvað best við erfiðar aðstæður gera ekki bara eitthvað vel, heldur gera þau allt sem þau gera vel. Þau setja viðskiptavininn og þarfir hans í fyrsta sæti á sama tíma og þau auka skilvirknina hjá sér, draga úr kostnaði, standa saman og verja tekjurnar. Að taka slaginn á öllum þessum vígstöðvum er bæði erfitt og krefjandi. Því skiptir máli að vera með rétta fólkið með sér í liði, vita hvað þarf að einbeita sér að og grípa tækifærið sem kreppan bíður uppá. Bara þannig getur þú sótt fram á völlinn á meðan aðrir pakka í vörn.

Viltu ræða áskoranir þínar við okkur?

Við kunnum að meta það að þú lest bloggið okkar. Þess vegna langar okkur að leggja okkar af mörkum og bjóða þér 30 mínútur af frírri stjórnendaráðgjöf í gegnum fjarfundarkerfið okkar. Sendu okkur línu hér að neðan og við verðum í sambandi um hæl til að finna góðan tíma til að hittast og ræða málin.

Icons made by Freepik from www.flaticon.com