5 meginþemu hönnunarhugsunar

Hönnunarhugsun er hugtak sem við heyrum sífellt oftar sem er ekki skrýtið í ljósi þess árangurs sem hefur náðst með notkun þessa nýja þankagangs við lausn vandamála.

Nýverið fékk ég tækifæri til að tala um hönnunarhugsun, fyrir fullu húsi hjá Samtökum verslunar og þjónustu. Þar ræddi ég þau meginþemu sem vinnan þarf að uppfylla, en hér verða aðalatriði erindisins dregin saman í stutta grein.

Hvað er hönnunarhugsun?

Skilgreiningin hönnunarhugsunar er á reiki og eru fræðimenn ekki allir sammála um hvernig á að skilgreina hana. Hún er skilgreind ýmist sem aðferðafræði, verkfærakista eða ferli. Mín skoðun er sú að allar þessar skilgreiningar séu réttar því að vera hönnunarhugsandi er eins og nafnið gefur til kynna nýr þankagangur í lausn vandamála!

Hönnunarhugsun sem ferli

Hönnunarhugsun er ferli sem byggist upp á 5 skrefum. Þau eru 1. Samkennd, 2. Skilgreining 3. Hönnun, 4. Frumgerð og 5. Prófanir. Það sem er ólíkt með þessu ferli og mörgum öðrum er að ekki er nauðsynlegt að fara í gegnum skrefin hvert á fætur öðru. Þvert á móti getum við hvenær sem er í ferlinu ákveðið að hoppa til baka um eitt eða fleiri skref og byrja aftur frá einhverjum ákveðnum stað eftir því sem við á.

Hönnunarhugsun sem verkfærakista

Hönnunarhugsun er engin geimvísindi heldur byggir á því að nota þekkt verkfæri eins og hugarflug, kortlagningu, frumgerðir og fleira sem margir þekkja og hafa notað stök. Í hönnunarhugsun er hinsvegar er búið að taka þessi verkfæri og skipta þeim niður á mismunandi staði í ferlinu þar sem þau nýtast best, svo eru þessi verkfæri notuð kerfisbundið til að líkja eftir skapandi ferli hönnuða.

Hönnunarhugsun sem aðferðafræði

Aðferðafræði er mögulega það hugtak sem lýsir hönnunarhugsun best og nær yfir bæði ferlishugmyndina og verkfærakistuna. Aðferðafræðin byggist upp á því að nota til skiptis útvíkkandi og samþjappandi aðferðir (e. diverging og converging) þannig er byrjað á að víkka út það sem við vitum um vandamálið og alla sem að því koma og þjöppum svo saman og skilgreinum hvað við ætlum að leysa. Víkkum svo aftur út hugmyndir að lausnum og þjöppun niður í eina lausn sem við prófum og ítrum.

Meginþemu hönnunarhugsunar

Skilgreiningin skiptir kannski ekki öllu máli en skilgreind hafa verið fimm meginþemu sem nauðsynlegt er að fylgja ef leysa á vandamál með hönnunarhugsun. Ef þessum meginþemum er ekki fylgt er ekki hægt að segja að hönnunarhugsun hafi átt sér stað. Í mörgum rannsóknum sem hafa verið framkvæmdar á misheppnuðum hönnunarhugsunarverkefnum hefur komið í ljós að einu eða fleiri meginþemum hefur ekki verið fylgt í gegnum verkefnið. (Carlgren, L., Rauth, I. & Elmquist, M. 2016, ‘Framing Design Thinking: The Concept in Idea and Enactment’, Creativity and Innovation Management, vol. 25, no. 1, pp. 38-57.)

1.       Notendamiðað

Hönnunarhugsun er notendamiðuð sem þýðir að allar ákvarðanir sem teknar eru við vinnuna eiga að vera teknar með þarfir notandans að leiðarljósi. Þessi notandi getur verið viðskiptavinur, notandi kerfis eða starfsmaður, en það er lykilatriði að gefa sér tíma til að skilgreina hver notandinn er svo hægt sé að taka réttar ákvarðanir út frá þörfum hans. Að draga notandann nær ferlinu hefur líka marga kosti í för með sér þar sem starfsmenn t.a.m. sjá ferli aftan frá og út frá sínum eigin þörfum. Með því að prófa vöru eða þjónustu á raunverulegum notendum komumst við fyrr að sannleikanum um hversu vel hún leysir vandamálið.

2.       Fjölbreytileiki

Til að vinna geti talist hönnunarhugsandi þarf fjölbreyttur hópur fólks að koma að henni. Það er gríðarlega mikilvægt til að komast í gegnum öll skrefin og mikilvægt að ekki allir hugsi eins. Þessum fjölbreytileika er hægt að ná fram með mismunandi hætti. Hægt er að velja fólk úr mismunandi deildum fyrirtækisins sem koma með ólíka nálgun á verkefnið. Í sumum tilfellum er mikilvægt að draga að ólíkan aldur eða bakgrunn. Önnur leið er að nota persónuleikapróf til að tryggja að þátttakendur hafi ólíka styrkleika. Eitt próf sem reynst hefur vel er Foursight sem byggir á því að fólk hafi persónueinkenni sem passi ákveðnum verkefnum hönnunarhugsunar betur en öðrum. Þannig er hægt að velja fólk í hópinn með það að markmiði að það drífi áfram ólíka hluta ferlisins.

3.       Sjónrænar aðferðir

Hönnunarhugsandi vinna fer undir venjulegum kringumstæðum ekki fram á tölvuskjá. Og í raun þarf enga tölvu í allri vinnunni. Notaðar eru sjónrænar aðferðir, post-it miðar, teikningar, tússpennar, töflur og í prótótýpuvinnunni er hægt að nota næstum því hvaða föndurefni sem er; leir, pappa, pípuhreinsa, lego kubba o.s.frv. Einn af kostunum við þessar sjónrænu, einföldu aðferðir er að þær eru ódýrar sem þýðir að hægt er að komast langt í vinnunni með litlum tilkostnaði. Þá er einnig minni áhætta að breyta um stefnu eða hætta við allt saman, ef í ljós kemur að vinnan er á rangri braut. Eitt af því sem hefur reynst sérstaklega vel er að vinnan fari fram í stríðsherbergi (e.war room). Þá fær teymið að leggja undir sig eitthvað rými þar sem hægt er að nota veggina og leyfa öllu að standa þar til yfir líkur. 

4.       Skilgreining vandamáls

Sú vinna sem fer í skilgreiningu vandamáls er það sem skilur hönnunarhugsun líklega hvað mest frá öðrum aðferðum við lausn vandamáls. Flest erum við mjög góð í að draga ályktanir um hvert vandamálið er og koma með hugmyndir um hvernig á að leysa það. En til að vera hönnunarhugsandi er nauðsynlegt að leyfa sér ekki að falla í þá gryfju, heldur í upphafi verkefnis að eyða tíma í að skoða áskorunina frá öllum hliðum og taka meðvitaða ákvörðun um hvaða vandamál á að leysa. Þetta er eitthvað sem vefst fyrir mörgum sem eru að taka sín fyrstu skref í þessari vinnu. Hins vegar eykur það líkurnar á að ná árangri töluvert, því með því að leggjast í þessa vinnu erum við líklegri til að leysa raunveruleg vandamál og þróa þannig lausnir sem eru elskaðar og notaðar.

5.       Tilraunir

Að vera hönnunarhugsandi er að prófa sig áfram og tilraunir eru mikilvægur partur af því. Að leita frumlegra leiða til að prófa og rannsaka vandamál er eitt af því sem gerir þessa vinnu sérstaklega skemmtilega. Auk þess er það lykilatriði að vera óhrædd/ur við að fara til baka og henda því sem ekki virkar og prófa eitthvað nýtt. Einfaldar frumgerðir, villtar hugmyndir og klikkaðar tilraunir hjálpa okkur að finna bestu leiðina til að skapa virði fyrir endanotandann.


Hefur þú áhuga á að vita meira um hönnunarhugsun og hvernig hún nýtist þér? Við hjá CoreMotif getum hjálpað þér að stilla upp eða stýra hönnunarsprettum og haldið námskeið eða vinnustofu fyrir þá sem langar að dýfa tánum í notendamiðuðu laugina og prófa að vera hönnunarhugsandi.

Sendu okkur línu og við hjálpum þér að stilla upp vinnustofu eða námskeiði

mynd.jpg

Berglind Ragnarsdóttir

Ráðgjafi og Þjónustuhönnuður