Samþætting

Ertu að fjárfesta í landamærum?

Samþætting er ótrúlega stór uppspretta falins kostnaðar í upplýsingatækni. Við samþættingu kerfa vex flækjustig tækniumhverfissins með hverri samþættingunni, hreyfanleikinn minnkar og dýrara verður að hrófla við þeim kerfum sem nú þegar mala kyrrlátlega við að dæla gögnum á milli kerfiseininga og knýja áfram viðskiptaferlana þína. Svo þegar þú þarft að kynna nýtt kerfi inn í kerfaflóruna geta ruðningsáhrifin verið eins og þegar frænkan mætti með alkóhólíska kærastann á ættarmótið. Það var gaman á meðan á því stóð, en amma ætlar seint að fyrirgefa frænku þinni fyrir það þegar kærastinn slefaði yfir veisluborðið og gleymdi að fara aftur í buxurnar eftir einhverja klósettferðina. Fyrir viðkvæmari kerfi geta slíkar stundir valdið óstöðuleika til lengri tíma. Samþættingin getur bilað vegna ýmisa ófyrirséðra villna og jaðarskilyrða sem ekki voru til staðar áður.

Flestir vita hvaða kerfi þeir eru með í rekstri, en hvernig er samþættingunni hagað? Hvað er að gerast á gráa svæðinu á milli kerfanna, þar sem þunginn í þróunarstarfinu liggur og þar af leiðandi stór hluti upplýsingatæknifjárfestingarinnar. Þú veltir því fyrir þér hvort þú hafir keypt köttinn í sekknum, eða ertu með vinningsmiðann í höndunum? Það er erfitt að segja til um og veltur alfarið á því hver viðskiptaleg strategían þín er.

Hvað á ég við með því? Til þess að einfalda málin ætla ég að setja fram eftirfarandi líkan af ímyndaðri kerfaflóru. Það eru þrír staðir til að samþætta á: gagnalaginu, þjónustulaginu (oft nefnt miðlag eða miðlari) og svo í clientnum (stundum nefndur biðlari). Hver aðferð hefur sína kosti og galla.

Hið heilaga gral samþættingarinnar er client samþættingin. Þar eru kerfi samþætt í client með því að byggja nokkurskonar portal. Þetta er aðferð sem notuð er hjá Amazon, Spotify og öðrum tæknijötnum þar sem þeir hafa áttað sig á því að besta leiðin í kerfahögun er að draga eins mikið úr hæði kerfa á hvort annað. Best er ef hver þjónusta stendur sem sjálfstæð kerfiseining og clientinn kann að bregðast við því ef þjónustan er óaðgengileg. Þetta þýðir líka að mikill sveigjanleiki er í því hvernig clientinn er byggður, þar sem hægt er að skipta út playlistapartinum með minniháttar ruðningsáhrifum.

Önnur aðferð við samþættingu er þjónustulagssamþætting. Þetta er mjög vinsæl aðferð í dag vegna þess að virknin sem búið er að byggja inn í miðlagið er gerð aðgengileg í samþættingunni. Þetta á við um aðgangsstýringar, viðskiptareglur og aðra útreikninga eða afstemmingar sem miðlagið getur framkvæmt. Annar kostur er að miðlagið er oftar en ekki hannað með það að markmiði að hægt sé að tengjast því svo að prófanir taka sérstak tillit til þess. Þjónustulagssamþætting opnar líka á möguleikana á að samþætta við kerfi í skýjunum. Það getur verið heppilegt að úthýsa sumum kerfum, innhýsa öðrum kerfum og samþætta þau á þjónustulaginu. Það getur þó verið gott að hafa í huga mismunandi svar- og uppitíma slíkra kerfa. Þá gæti hentað að færa sig frá vefþjónustuköllum og nota skeytasendingar í auknu mæli. Skeytasendingar hafa marga kosti umfram hefðbundin vefþjónustuköll og hafa undanfarið orðið mjög vinsæl leið til að byggja upp dreifð og bilanaþolin kerfi.

Gagnalagssamþætting er samþætting þar sem gagnalag eins kerfis tengist beint í gagnalag annars kerfis. Það má útfæra það með að gera töflur eða view aðgengileg öðrum kerfum, eða með batch vinnslu þar sem miklu magni gagna er skóflað úr einni töflu í aðra. Gagnalagssamþætting er algeng leið og í mörgum tilfellum varasöm aðferð við að samþætta kerfi. Þessi samþættingaraðferð var vinsæl á árum áður og var oft fyrsta val þegar kerfaflóran er einföld, um leið og kerfaflóran stækkar verður gagnagrunnurinn eins og spaghettíflækja með kjötbollum. Þetta er varasöm leið því að vandasamt er að tengjast beint í gagnagrunn annars kerfis því það þarf að hafa nákvæman skilning á því hvað einhver annar gagnagrunnshönnuður var að hugsa þegar hann bjó til skemað. Annað atriði er að flest kerfi eru upprunalega hönnuð þannig að viðskiptareglur og aðgangsstýringar eru byggðar inn í miðlagið. Einnig geta gagnagrunnssamþættingar dregið úr hreyfanleika í kerfaflórunni og lagt of mikið álag á gagnagrunna og þar með dregið úr álagsþoli kerfanna. Á endanum verður kerfismyndin í laginu eins og öfugur pýramídi, sem getur auðveldlega oltið um koll við minnsta hnjask. Ég myndi almennt séð mæla með því að aðrar samþættingaraðferðir séu skoðaðar ýtarlega áður en farið er út í samþættingu á gagnalagi.

Raunveruleikinn er sá að það er mikið tækifæri falið í samþættingu kerfa. Því ætti að móta sér stefnu í samþættingu sem endurspeglar viðskiptastrategíuna og þær kröfur sem hún gerir um hreyfanleika í kerfaflórunni og þróunarhraða. Það er mögulegt að draga bæði úr kostnaði og áhættu með því að draga úr flækjustigi í samþættingu. Einnig hefur samband þitt við núverandi birgja mikið að segja, hvort þeir geti afhent þjónustulag til samþættingar eða tilbúnar þjónustur sem hægt er að samþætta í client.

Í mörg horn er að líta, og mögulega hægt að kafa enn frekar í kosti og galla hverrar aðferðar, en allar ferðir hefjast á því að átta sig á því hvar þú stendur í dag, hvert þú stefnir og þá er hægt að skoða hvernig þú kemst þangað. Lítið verkefni í dag getur sparað mikið í rekstrakostnaði til lengri tíma.