Nýsköpun og nýsköpunarstefna

Nýsköpunarstefna

Nýsköpun er mikilvægur þáttur í því að hjálpa fyrirtækinu að vaxa með því að viðhalda eða bæta markaðsstöðu sína. Flest fyrirtæki sem hafa fest sig í sessi eru viðkvæm fyrir nýrri samkeppni, og þá sérstaklega samkeppni sem á uppruna sinn að rekja til nýsköpunar. Við sjáum sem dæmi kvikmyndamarkaðinn hvernig veitur eins og HBO, Netflix og fleiri hafa stöðugt klipið sér stærri sneið af sjónvarpsmarkaðskökunni.

Nýsköpunarstefna, eða innovation strategy eins og hún er kölluð á ensku, lýsir því hvernig fyrirtækið þitt ætlar að sinna nýsköpun. Nýsköpunarstefna er frábrugðin öðrum stefnum vegna þess hve erfitt er að sjá fyrir skrefin, tímans sem þau taka og hversu áhrifarík nýsköpunin verður.

Nýsköpunarstefna leiðbeinir og mótar ákvarðanir um hvernig fólk, fjármagn og auðlindir fyrirtækisins er nýtt til að mæta markmiðum fyrirtækisins um nýsköpun, skila virði og byggja samkeppnisforskot. Nýsköpunarstefna getur innihaldið:

 • Greiningu á umhverfi og samkeppni ásamt tæknilegu umhverfi
 • Ytri áskorunum og tækifærum
 • Forskoti fyrirtækisins

Restin af þessari grein lýsir því hvernig hægt er að þróa nýsköpunarstefnu

Að þróa nýsköpunarstefnu

Það eru til margar tegundir af nýsköpun, og mörg svæði til nýsköpunar, og sú tegund af nýsköpun sem verður fyrir valinu veltur á því hvað nýsköpunarstefnan inniheldur hverju sinni. Stefnan, á móti, mótast af því hvar fyrirtækið er statt, hvert það stefnir og hver vænt útkoma nýsköpunarinnar er.

Deloitte hefur til dæmis borið kennsl á 10 svæði til nýsköpunar í rekstri fyrirtækja en þau má flokka í 3 höfuðflokka, samstæða (e. configuration), framboð (e. offering) og upplifun (e. experience)

Samstæða

 • Arðsemi (e. profit model): Hvernig fyrirtækið þénar peninga, áskrift, eingreiðslur og svo framvegis
 • Samstarf (e. network): Samstarf við aðra aðila og fyrirtæki til að búa til virði
 • Skipulag (e. structure): hvernig þú nýtir þekkingu og hæfileika starfsfólksins
 • Ferlar (e. process): Hvernig þú veitir þjónustu eða býrð til vörur

Framboð

 • Gæði vörunnar (e. product performance): Virkni og fídusar
 • Virðisaukandi vörur/þjónustur (e. product system): Þjónustur og vörur sem styrkja vöruna þína

Upplifun

 • Þjónusta (e. service): Notendaaðstoð og stuðningur við neytendur
 • Miðlar (e. channels): Hvernig vörur og þjónustur eru boðnar til viðskiptavina
 • Vörumerki (e. brand): Hvernig vörur og þjónustur eru kynntar viðskiptavinum
 • Tengsl við viðskiptavini (e. customer engagement): Sambandið sem þú átt við viðskiptavini.

Nýsköpun í samstæðu miðar að því að lækka rekstrarkostnað og nýta starfsfólk og samstarfsaðilar hafa uppá að bjóða, sem dæmi má nefna samþættingu í virðiskeðju og til dæmis þegar fyrirtæki ákveður að úthýsa hluta af starfsemi sinni til að geta betur sinnt kjarnastarfsemi. Nýsköpun í framboði auðveldar að loka sölu og bætir samkeppnisstöðu í vali. Sem dæmi má nefna Kóreska bílaframleiðendur sem fóru að bjóða upp á 7 ára ábyrgð eftir gagnrýni á gæði þegar þeir fyrst fóru að bjóða bíla til sölu. Nýsköpun í upplifun miðar að því að bæta það hvernig samskipti við viðskiptavini fara fram, og upplifun þeirra (e. customer journey) með það að markmið að auka ánægju þeirra og halda betur í viðskipti þeirra. Sem dæmi má nefna þegar fyrirtæki bjóða upp á snjallforrit eða öpp og markaðsherferðir ýmiskonar. Sjá nánar á www.doblin.com eða í bókinni “10 types of Innovation”

Hver á útkoman að vera?

Nýsköpunarstefnan á að endurspegla hvað það er sem þú vilt ná fram. Ef markmiðið er vöxtur og aukin viðskipti má flokka nýsköpunina í fjóra flokka:

Ansoff

Ansoff

Sem dæmi má nefna:

 • Þróa nýja vöru: Þú sérð tækifæri fyrir róttæka breytingu tegundum af vörum sem hægt er að bjóða á markaðnum
 • Vernda markaðshlutdeild – á mörgum mörkuðum er nýsköpun nauðsynleg hreinlega til að viðhalda markaðshlutdeild
 • Stækka markaðshlutdeild – til dæmis að bjóða núverandi vörur á nýjum mörkuðum
 • Selja eða veita umboð – Þú gætir verið að leita að einhverjum til að fara í samstarf við að selja vöruna þína eftir að þú hefur þróað hana
 • Halda í starfsfólk – á erfiðum mörkuðum eins og upplýsingatæknimarkaði gæti nýsköpun verið nauðsynleg til að halda í starfsfólk með því að bjóða krefjandi og skapandi umhverfi
 • Auka skilvirkni – þú gætir verið að leita að leiðum til að draga úr kostnaði með straumlínulögun og bestun á viðskiptaferlum
 • Styrkja markaðsstöðu – Þú gætir verið að leita að leiðum til að styrkja vörumerkið og staðsetningu á markaði með nýrri markaðsstefnu

Sú tegund af nýsköpun sem verður fyrir valinu og það stig áhættu sem þú ert til í að taka til að standa í nýsköpuninni fer eftir þeim ávinningi sem nýsköpunin á að skila. Fyrirtækið þitt gæti verið á höttunum eftir mörgum mismunandi útkomum og gæti því þurft margar mismunandi stefnur. Mögulega væri hægt að setja fram eina stefnu um nýsköpun á samstæðustigi, eins og straumlínustjórnun og úthýsingu, og aðra á upplifunarstigi í formi markaðsherferðar. Stundum skipa fyrirtæki fulltrúa viðskiptavina til að sinna nýsköpunarstarfi í upplifun viðskiptavina.

Þegar þú hefur borið kennsl á þá útkomu sem leitað er eftir og metið hversu vel hún passar við fyrirtækið er heppilegt að íhuga hverskonar nýsköpunarstefna gæti best hentað til að ná útkomunni.

Tegundir nýsköpunarstefna

Nýsköpunarstefnur má flokka sem fyrirbyggjandi (e. proactive), virkar (e. active), viðbragð (e. reactive), og aðgerðarlausar (e. passive) (Dogson et al. 2008)

Fyrirbyggjandi

Fyrirtæki með fyrirbyggjandi nýsköpunarstefnu búa oft að öflugu rannsóknarstarfi og forskoti á markað ásamt því að vera leiðandi á markaði í nýtingu tækni. Þau hafa aðgang að þekkingu frá breiðu neti samstarfsaðila og veðja stórt og taka mikla áhættu. Dæmi um slík fyrirtæki eru Dupont, Apple og Singapore Airlines.

Dæmi um tæknilega nýsköpun sem beitt er sem hluta af fyrirbyggjandi nýsköpunarstefnu eru

 • Róttæk (e. disruptive) – uppfinningar og þróun sem breytir eðli vara og þjónusta
 • Stigvaxandi  (e. sustaining) – stöðug framþróun tækni eða ferla sem bætir frammistöðu á stigvaxandi máta.

Lesa má meira um eðli róttækrar og stigvaxandi nýsköpunar í bók Clayton Christianssen, “The Innovator’s Dilemma” sem fæst meðal annars á Amazon.

Virk

Virk nýsköpunarstefna felur í sér að verka núverandi tækni og markaði á sama tíma og fyrirtækið er viðbúið að svara þegar markaðir og tækni hafa sannað sig. Fyrirtæki sem nota þessa nálgun hafa einnig víðfeðmt net samstarfsaðila sem sjá þeim fyrir þekkingu og tækni ásamt því að taka eingöngu miðlungs áhættu, og leyfa öðrum að taka á sig áhættu frumkvöðlastarfsins. Dæmi um fyrirtæki sem beita virkri nýsköpunarstefnu eru Microsoft, Dell og British Arways. Þessi fyrirtæki nýta aðallega stigvaxandi nýsköpun í bland við rannsóknir og þróun innanhús.

Viðbragð

Nýsköpunarstefna sem byggir á viðbragði eru aðallega notaðar af fyrirtækjum sem:

 • Elta aðra
 • Fókusera á rekstur og skilvirkni
 • Nálgast vandamálin með bíðum-og-sjáum hugarfari
 • Leita eftir tækifærum með lítilli áhættu

Þau herma eftir nýsköpun sem hefur sannað sig og nota eingöngu stigavaxandi nýsköpun. Gott dæmi er Ryanair, sem hermdi eftir lággjaldaviðskiptalíkani Southwest Airlines.

Aðgerðarlaus

Fyrirtæki með aðgerðalausa (e. passive) nýsköpunarstefnu bíða þar til viðskiptavinir þeirra biðja um breytingar í vörunum þeirra eða þjónustu. Sem dæmi má nefna fyrirtæki sem sjá bílaiðnaðnum fyrir íhlutum þar sem þau bíða eftir að viðskiptavinir þeirra breyti hönnun sinni og biðji um nýja íhluti áður en þeir eru framleiddir. Þessi nálgun er líka notuð af mörgum hugbúnaðarfyrirtækjum sem afgreiða eingöngu sögur af backlogg sem viðskiptavinir hafa beðið um.

Lestu næst: Að hrinda nýsköpun í framkvæmd

Við hjá Coremotif þekkjum stefnumótun í þaula og getum aðstoðað þig við að móta þér nýsköpunarstefnu til að verja markaðsstöðuna þína, sækja á nýja markaði eða setja nýjar vörur í loftið. Við erum alltaf til í samtal, svo ef þú heldur að nýsköpun gagnist fyrirtækinu þínu ekki hika við að vera í sambandi.