Passa ITIL og DevOps saman?

Stafrænar lausnir, Digitalization, DevOps og straumlínustjórnun hafa nánast heltekið Íslenskt atvinnulíf af góðri ástæðu. Fyrirtæki sem sátu nánast föst í frosnum snjóskafli samkeppninnar þurftu að brjótast úr klakabrynjunni, koma blóðinu á hreyfingu og koma lausnum sínum hraðar og betur á markað. Nú hafa þau fengið nokkur verkfæri til að gera akkúrat það. Eitt af þeim verkfærum heitir DevOps.

Mörg fyrirtæki hafa fjárfest að einhverju leyti í ITSM ferlum, eins og ITIL, til að stýra gæðunum á rekstrinum og þjónustuveitingunni. Þessir ferlar hafa oft verið stífir og erfiðir þegar það þarf að koma nýjum þjónustum í rekstur, en DevOps og Agile aðferðir ganga út á það að skila afurðum hraðar út á raunumhverfið og í hendur á viðskiptavinum. En hvað á að gera nú við gamla dótið? Út með það gamla og inn með það nýja? Er það ekki einmitt besta leiðin til að halda sér í fremstu víglínu? Stóra spurningin er, þarftu ITIL ef þú ert með DevOps, eða getur þú sagt að DevOps sé hið nýja ITIL?

 

ITIL er samansafn af ferlum og bestu aðferðum (e. best practices). Viðfangsefni ITIL er rekstur upplýsingakerfa og þjónusta sem upplýsingatæknifyrirtæki veita. ITIL snýst aðallega um að stýra gæðum og rekstraröryggi þjónusta. ITIL snertir á sömu viðfangsefnum og DevOps

DevOps er aðferðafræði sem má nota til að bæta virðisstrauminn frá hugmynd til vöru. DevOps inniheldur mikið af sjálfvirkni til að losa fólk úr handavinnu. DevOps snýst aðallega um það hvernig þú þróar þjónustur fyrir viðskiptavini. DevOps snertir á sömu viðfangsefnum og ITIL

 

Þegar fyrirtæki hefur útfært DevOps með góðum árangri hefur fyrirtækið endurskipulagt sig í kringum þær vörur og þjónustur sem það veitir í stað þess að hópa sérfræðinga saman í hópa eftir sérþekkingarsviði. Lögmál Convays, fyrst sett fram 1967, útleggst einhvernvegin svona á Íslensku: “deildir eða fyrirtæki sem framleiða hugbúnað, geta ekki annað en framleitt hugbúnað sem endurspeglar innri samskipti og skipulag þeirra”. Það segir okkur að ef að það eigi að breyta því hvernig hugbúnaður er skrifaður, t.d. umbreyta högun hans og aðferðum við að búa hann til, þarf að endurskipuleggja viðkomandi fyrirtæki eða deild.

Hugmyndin er í sjálfu sér einföld, þróunarteymi, Dev, sjá um vöruþróun frá A-Ö og rekstrarteymið, Ops, sér um að reka umhverfið sem lausnirnar lifa í. Bæði Dev og Ops, vinna saman við að deila þekkingu og stytta ferlið sem það tekur að koma vöru til viðskiptavinarins með því að útrýma sóun úr þróunarferlinu með hefðbundinni straumlínustjórnun.

Þessi breyting á skipulaginu þýðir að nú verður skipulagið hannað út frá markaðnum, vörunum og þeim viðskiptavinum sem nota þær. Á ensku heitir þetta að verða Customer centric. Í stað þess að skipuleggja þannig að starfsfólk sem sinnir svipuðum hlutverkum er hópað saman í teymi. Þá hættir fyrirtækið að vera skipulagt í kringum netþjóna, veflausnir og gagnagrunna og verður þess í stað skipulagt í kringum þjónustur, og byggingareiningar þeirra þjónusta. Það verða þá til teymi sem bera alfarið ábyrgð á virðiskeðjunni sem spannar frá hugmynd að útgáfu kóða í raunumhverfi. Þessa umbreytingu má kalla frá fúnksjón til markaða.

Þetta er þannig séð ekkert ótrúlega ný hugmyndafræði. Hún  var fundin upp í kjölfar seinni heimstyrjaldar og var notuð af framleiðslufyrirtækjum eins og Toyota, Ford og fleirum. Straumlínustjórnun eða Lean hefur verið beitt í fjölda mörg ár með góðum árangri og þegar henni er beitt á samstarf rekstrar og hugbúnaðarþróunar heitir hún DevOps. Að kryfja DevOps er þó viðfangsefni sem betra er að geyma í aðra blogg grein. En aftur að ITIL og DevOps spurningunni, passar þetta saman?

Þar sem skipulagi upplýsingatæknisviðs og nálguninni við að búa til hugbúnað hefur verið breytt, hvað verður þá um ITIL? Á að henda því? Hætta? Breyta?

Skoðum málið aðeins betur. Gefum okkur það að þróunarteymið (development) sjái nú um alla þróun og útgáfu af hugbúnaði, frá viðskiptahugmynd í hendur viðskiptavina. Allt gengur vel þangað til eitthvað kemur uppá.

Bilanir

Jú, þær verða alvarlegastar í raunumhverfinu, og eru af tveim gerðum, annarsvegar vélbúnaðarbilun eða hugbúnaðarbilun. Segjum sem svo að innleiðingin á DevOps hafi gengið vonum framar, og nú fylgist þróunarteymið með rekstri hugbúnaðarins frá A-Ö. Ef eitthvað bilar þá er það lagað með útgáfu, ef eitthvað þarf að græja, þá er það líka lagað með útgáfu. En, ef það er eitthvað sem þróunarteymið sá ekki fyrir, eða bilunin á sér stað í vélbúnaðnum eða því umhverfi sem platform teymið sér um að reka, þá tekur þróunarteymið ekki endilega eftir biluninni. Því má færa rök fyrir því að þó svo að DevOps leysi af hólmi breytingar og útgáfustjórnun samkvæmt ITIL, þurfa þó ennþá að vera til viðbragðsferlar eins og Incident og Problem Management, ásamt því að þjónustuborðið þarf að veita þjónustu samkvæmt viðurkenndu gæðakerfi.

Útgáfa

Breytingastjórnun er viðfangsefni sem spannar mikið meira en bara upplýsingatæknisvið. Rétt útfært breytingastjórnunarferli nær allt frá viðskiptaþróun, þar sem viðskiptahugmyndir eru hannaðar, til útgáfu en ITIL ferlið sem sér um útgáfu heitir Release Management. Með því að innleiða Portfolio Management í viðskiptaþróun og láta DevOps um útgáfumál má þannig séð hætta að nota ITIL breytingarstjórnunarferlana þannig séð, bæði Change Management og Release Management.

Stýringar

Mörg stærri fyrirtæki starfa á mörkuðum þar sem strangar kröfur eru settar á starfsemi þeirra. Yfirvöld og eftirlitsaðilar, eins og Fjármálaeftirlitið, Persónuvernd og endurskoðendur og landslög leggja kröfur á herðar fyrirtækja sem útfærðar eru með hinum ýmsu stýringum í gæðakerfum fyrirtækja. Margar þessara stýringa hafa verið útfærðar og uppfylltar meðal annars með ITIL, en útgangspunktur OCG við hönnun ITIL er meðal annars þær kröfur sem eftirlitsaðilar setja á fyrirtæki, samanber ISO2000 og ISO27001. Útfærsla þessara stýringa er ein ástæða þess að ITIL er þyngra í vöfum en margar Agile aðferðir.

Ef hætta á með ITIL og taka upp DevOps í staðinn þarf að gæta þess vel að stýringar til uppfyllingar viðkomandi regluverks séu til staðar. Til dæmis gæti þurft að passa að sömu meðlimir vöruþróunarteymis sem sjá um að skrifa kóða  hafi ekki aðgang í raunumhverfi sé um fjármálafyrirtæki að ræða.

Það má því svara spurningunni með bæði já og nei. Það má útleiða ITIL að vissu leyti, þar sem DevOps tekur við hlutverki ITIL á ákveðnum sviðum. En það má samt ekki útleiða ITIL á öðrum sviðum þar sem DevOps tekur ekki við, til dæmis við rekstur þjónustuborðs. Það má draga töluvert úr umsvifum ITIL, og einfalda ITSM kerfið verulega.

En hvað svo sem gerist, þá þarf alltaf að hafa í huga að lögbundnar stýringar við tilmælum og kröfum löggjafa og eftirlitsaðila séu uppfylltar, hvort sem það er með DevOps eða ITIL, því verður ekki komst hjá.

Að lokum viljum við nefna það að þrátt fyrir það að DevOps uppfylli ekki endilega allar kröfur eftirlitsaðila er mikilvægt fyrir fyrirtæki að innleiða DevOps hjá sér ætli þau að standa sig í samkeppni við önnur fyrirtæki. Með tilkomu nýsköpunarbókhalds, A/B prófana, Lean Entrepreneurship er nánast ómögulegt að standa sig án þess að innleiða DevOps. Með DevOps er hægt að losa starfsmenn sem áður vörðu tíma sínum í handvirkar prófanir, útgáfur og uppsetningu netþjóna til að sinna betri þjónustu við viðskiptavini, hraða henni og bæta gæðin.

Við hjá Coremotif höfum yfirgripsmikla þekkingu á DevOps og ITIL, og getum mögulega aðstoðað þig við að innleiða þær breytingar sem nauðsynlegar eru. Sendu okkur línu ef þú telur að við getum hjálpað.